Fáheyrt atvik átti sér stað í síðari hálfleik viðureignar Barein og Bandaríkjanna á heimsmeistaramóti karla í handknattleik í Malmö Arena í dag. Menn sem eru ýmsu vanir í handknattleik minnast þess ekki að maður hafi verið bitinn af andstæðingi sínum en sú varð raunin í leiknum.
Paul Skorupa línumaður bandaríska landsliðsins beit í handlegginn á Husain Alsayyad fyrirliða landsliðs Barein þegar þeir voru að berjast um stöðu á leikvellinum. Alsayyad átti sér einskis ills von. Atvikið fór framhjá dómurunum en vegna ákafra mótmæla leikmanna Barein féllust dómararnir á að skoða upptöku frá leiknum, líta í varsjána. Þar sást greinilega að Alsayyad og félagar höfðu rétt fyrir sér. Skorupa hafði bitið í handlegginn Alsayyad.
Skorupa fékk bæði rautt og blátt spjald áður en hann fór skömmustulegur af leikvellinum. Fullvíst má telja að hann verði í leikbanni í næsta leik bandaríska landsliðsins á mótinu enda eiga bitvargar ekki heima á handknattleiksvellinum.
HM 2023 – Milliriðlar, leikjadagskrá, staðan