Áfram er róðurinn erfiður og þungur hjá Díönu Dögg Magnúsdóttur og samherjum hennar í BSV Sachsen Zwickau í botnbaráttu þýsku 1. deildarinnar í handknattleik. BSV Sachsen Zwickau tapaði í gær fyrir Sport-Union Neckarsulm á heimavelli með tveggja marka mun, 30:28. Þetta var önnur viðureign liðanna á nokkrum dögum en á miðvikudagskvöld mættust þau í Neckarsulm sem er nærri Stuttgart.
Díana Dögg skoraði þrjú mörk í leiknum í gær, átti þrjár stoðsendingar, var með þrjú sköpuð færi og stal boltanum tvisvar sinnum. „Ég klikkaði á of mörgum færum fyrir minn smekk,“ sagði Díana Dögg en lið hennar rær lífróður fyrir að halda sæti sínu í deildinni. Sport-Union Neckarsulm var tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 16:14.
Tveir leikir í vikunni
BSV Sachsen Zwickau tekur á móti Bayer Leverkusen á heimavelli á miðvikudagskvöld og sækir Oldenburg heim í lokaumferðinni á laugardaginn.
BSV Sachsen Zwickau er í neðsta sæti með níu stig eftir 24 leiki. Liðið er stigi á eftir HL Buchholz 08-Rosengarten. Neðsta liðið fellur úr deildinni en það sem hafnar í næst neðsta sæti tekur þátt í umspili um sæti í deildinni við liðið sem hafnar í öðru sæti í 2. deild.
„Við eigum tvo leiki eftir til að klára þetta. Ég hef fulla trú á að það takist og við náum að lyfta okkur upp úr neðsta sætinu,“ sagði Díana Dögg ákveðin við handbolta.is í gærkvöld.