Berta Rut Harðarsdóttir og samherjar hennar í Holstebro höfðu betur í heimsókn sinni til Andreu Jacobsen og félaga í EH Aalborg í fyrstu viðureign liðanna í umspili um sæti í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í dag. Lokatölur voru 27:20 í Nørresundby Idrætscenter í Álaborg. Holstebro var marki yfir í hálfleik, 13:12.
Sigurinn er fremur óvæntur þar sem EH Aalborg tapaði aðeins tveimur leikjum í deildinni og var hársbreidd frá efsta sætinu á markatölu. Holstebro var fjórum stigum á eftir í þriðja sæti.
Berta Rut skoraði eitt mark fyrir Holstebro í leiknum í dag. Andrea skoraði tvö mörk fyrir EH Alaborg.
Vinna þarf tvo leiki til þess að komast áfram og öðlast rétt til þess að mæta næst neðsta liði úrvalsdeildar í leik um sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.
Næsta viðureign fer fram í Holstebro á föstudaginn. Þann leik verður EH Aalborg að vinna til þess að knýja fram oddaleik á heimavelli laugardaginn 29. apríl.