Berta Rut Harðardóttir og samherjar hennar í Kristianstad HK eru áfram á góðri siglingu í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik kvenna. Liðið er í efsta sæti á undan Skuru IK eftir fjórar umferðir með átta stig, fullt hús. Í dag vann Kristianstad HK liðsmenn HK Aranäs, 33:28, á heimavelli.
Berta Rut, sem kom til félagsins í sumar frá Holstebro í Danmörku, skoraði tvö mörk í fimm skotum í sigurleiknum á heimavelli í dag. Hún átti einnig eina stoðsendingu.
Bitu í súra eplið
Íslendingatríóið hjá Skara HF mátti bíta í það súra epli að tapa fyrir Höörs HK H 65, 27:24, í Sporthallen í Höör. Liðsmenn Skara fóru illa að ráði sínu í fyrri hálfleik sem gerði þeim róðurinn þyngri í síðari hálfleik. Staðan eftir 30 mínútur var 16:8 fyrir Höör-inga.
Aldís Ásta markahæst
Aldís Ásta Heimisdóttir lék afar vel fyrir Skara HF eins og hún virðist gera nær undantekningalaust. Akureyringurinn skoraði sex mörk úr níu skotum, átti tvær stoðsendingar auk þess að ganga svo vasklega fram í vörninni að ekki varð hjá því vikist að víkja henni af leikvelli í tvígang í tvær mínútur í hvort skipti.
Katrín Tinna Jensdóttir skoraði tvö mörk og Jóhanna Margrét Sigurðardóttir skoraði ekki. Hún átti aðeins eitt markskot.
Skara HF hefur tvö stig að loknum fjórum leikjum.
Staðan á einni síðu
Nánar er hægt að kynna sér stöðuna í sænska handboltanum og fleiri deildum Evrópu á sérstakri stöðusíðu sem sett hefur verið upp undir flipanum staða og leikir og m.a. má nálgast hér.