Ellefu dögum áður en flautað verður til fyrsta leiksins á Evrópumóti kvenna í handknattleik hafa dönsk heilbrigðisyfirvöld gefið grænt ljós fyrir að mótið fari fram þar í landi. Skömmu fyrir hádegið staðfesti Magnus Heunicke, heilbrigðisráðherra Danmerkur, heimild til mótahaldsins gegn þeim ströngu skilyrðum um sóttvarnir sem Handknattleikssamband Evrópu og Danmerkur höfðu lagt fram.
Danska handknattleikssambandið hefur beðið eftir staðfestingunni síðan á fimmtudaginn. Um helgina sagði formaður sambandsins, Per Bertelsen, að þolinmæði sín væri að bresta. Kallaði hann stjórn sína saman til neyðarfundar í gærmorgun. Á fundinum var ákveðið að halda áfram undirbúningsvinnu og bíða afram eftir staðfestingu ráðherra.
Aðeins er vika síðan Norðmenn gáfu upp á bátinn að halda mótið í samvinnu við Dani. Gert var ráð fyrir að um 60% af leikjum EM færi fram í Þrándheimi í Noregi. Reyndar hafði það legið í loftinu um nokkurt skeið að Norðmenn gætu gengið úr skaptinu. Á þeim tíma höfðu Danir undirbúið jarðveginn ef þeir fengju mótið í fangið á elleftu stundu. Þess vegna er ekkert til fyrirstöðu að flautað verður til leiks 3. desember í Herning í Kolding á Jótlandi.
Nú er ljóst að mótið fer fram og stendur frá 3. til 20. desember.
Leikir A- og B-riðla fara fram í Jyske Bank Boxen í Herning en leikir C- og D-riðla í Sydbank Arena í Kolding. Hvor staður mun síðan hýsa einn milliriðil keppninnar. Leikir úrslitahelgarinnar fara fram í Jyske Bank Boxen í Herning.
Í A-riðli verða landsliðs Frakkland, Danmerkur, Svartfjallalands og Slóveníu.
Í B-riðli leika landslið Rússa, Svía, Spánverja og Tékka.
Í C-riðli verða landslið Hollands, Ungverjalands, Serbíu og Króatíu.
Í D-riðli leika landslið Rúmeníu, Noregs, Þýskalands og Póllands.
Mótið hefði verið fellt niður ef ráðherra hefði neitað óskum danska handknattleikssambandsins um að mótið færi fram.