Elvar Ásgeirsson og félagar í Nancy léku sinn besta leik til þessa í frönsku 1. deildinni á heimavelli í dag er þeir tóku á móti Ólafi Andrési Guðmundssyni og samherjum í Montpellier. Frammistaðan nægði Nancy þó ekki til sigurs. Hið sterka lið Montpellier, sem er í efsta sæti A-riðils Meistaradeildar Evrópu, vann með þriggja marka mun, 33:30, eftir að hafa verið marki undir að loknum fyrri hállfleik, 14:13.
Elvar var næst markahæstur hjá Nancy með sex mörk, þar af eitt úr vítakasti. Hann átti níu skot á markið. Til viðbótar átti Elvar fimm stoðsendingar.
Ólafur Andrés var ekki í stóru hlutverki að þessu sinni í sóknarleik Montpellier. Hann átti tvö markskot sem geiguðu. Ólafur Andrés tók meira þátt í varnarleiknum og var einu sinni vísað af leikvelli.
Montpellier færðist upp í sjöunda sæti frönsku 1. deildarinnar með sigrinum. Nýliðar Nancy eru í þriðja neðsta sæti.