- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Betra liðið tapaði

Kristinn Björgúlfsson, hefur ákveðið að láta gott heita við þjálfun karlaliðs ÍR. Mynd/ÍR
- Auglýsing -

„Því miður þá tapaði betra liðið að þessu sinni. Við vorum einfaldlega mikið betra liðið í þessum leik frá upphafi til enda,“ sagði Kristinn Björgúlfsson, þjálfari ÍR, þrátt fyrir þriggja marka tap, 27:24, fyrir Fram í lokaleika 4. umferðar Olísdeildar karla í Framhúsinu í gærkvöld. ÍR-liðið þar með áfram í neðsta sæti án stiga.


„Við klikkum á dauðafærunum og þess vegna unnum við ekki leikinn. En við sundurspiluðum Fram-liðið, jafnt í vörn sem sókn frá upphafi til enda,“ sagði Kristinn og undirstrikaði að það búi margt í ÍR-liðinu þrátt fyrir að það sé enn án stiga og af mörgum talið það slakasta.
„Þegar við erum „on“ þá erum við alls ekki slakasta liðið í deildinni því get ég lofað.”

Það nægir ekki þegar ekkert hefst upp úr krafsinu, ekki satt Kristinn?
„Það segir sig sjálft. Við gerum okkur grein fyrir hvar við stöndum og hvað hefur gengið á hjá félaginu. Ég held að ekkert lið í deildinni geti verið með sjö uppalda leikmenn inni á vellinum í einu á 50 mínútu í hörkuleik í Olísdeildinni.
Með sömu baráttuhugsun og sigurvilja og ÍR-liðið sýndi að þessu sinni þá erum við til alls líklegir. Ef við töpum leikjum en sýnum svona leik eins og við gerðum núna þá er ég sáttari. Við getum hinsvegar ekki leyft okkur að leika eins og við gerðum gegn Þór í leiknum á undan. Þá gáfumst við upp í miðju stríði. En að tapa á þann veg sem við gerðum að þessu sinni er mikið betra og í raun allt, allt annað,“ sagði Kristinn Björgúlfsson, þjálfari karlaliðs ÍR í samtali við handbolta.is eftir leikinn í Framhúsinu í gærkvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -