Betur fór en áhorfðist hjá Robertu Stropé handknattleikskonunni öflugu hjá Selfossi. Óttast var að hún hefði slitið krossband í hné snemma í síðari hálfleik í viðureign Selfoss og Vals í Olísdeild kvenna á 13. febrúar. Eyþór Lárusson þjálfari Selfossliðsins sagði spurður í gær að útilokað hafi verið að krossband væri slitið.
„Eftir gaumgæfilegar rannsóknir hefur verið staðfest að krossbandið er í lagi. Það er mikill léttir fyrir alla,“ sagði Eyþór í gær.
„Ég vonast til að Roberta geti leikið með okkur á nýjan leik eftir fjórar til sex vikur þegar hún hefur jafnað sig og þar með hjálpað okkur á lokaspretti tímabilsins.“
Hillir í Tinnu Sigurrós
Auk Stropé er ekki loku fyrir það skotið að unglingalandsliðskonan Tinna Sigurrós Traustadóttir geti bæst í hópinn hjá Selfossliðinu undir lok tímabilsins.
Tinna Sigurrós, sem var markahæst í Grill 66-deildinni á síðasta tímabili, og hefur meira og minna verið úr leik allt keppnistímabilið. Framan af vegna afleiðinga höfuðhöggs sem hún varð fyrir á heimsmeistaramóti 18 ára landsliða í ágúst en síðan vegna meiðsla í baki.
Eyþór sagði útlitið vera gott hjá Tinnu Sigurrós þessa dagana. Hún væri óðum að sækja í sig veðrið og ekki væri hægt að útiloka þátttöku hennar í síðustu leikjum Selfossliðsins á keppnistímabilinu.
Selfoss er nýliði í Olísdeild kvenna og situr um þessar mundir í næst neðsta sæti en hefur tryggt sér sæti í undanúrslitum Poweradebikarsins um miðjan næsta mánuð.