- Auglýsing -
Aðalsteinn Eyjólfsson og lærisveinar hans í bikarmeistaraliði Kadetten töpuðu í kvöld á útivelli fyrir Pfadi Winterthur, 28:25, í fyrsta leik liðanna í úrslitum um svissneska meistaratitilinn í handknattleik karla. Næsti leikur liðanna verður í Schaffhausen á mánudaginn en vinna þarf þrjá leiki til þess að vinna meistaratitilinn svo það er enn nóg eftir.
Leikmenn Winterthur voru yfir lengst af í leiknum í kvöld, m.a. munaði tveimur mörkum að loknum fyrri hálfleik, 14:12.
Kadetten varð meistari í Sviss 2019 en ekki var krýndur meistari á síðasta ári. Alls hefur Kadetten ellefu sinnum unnið meistaratitilinn en Winterthur í níu skipti, síðast 2004. Árið eftir varð Kadetten meistari í fyrsta sinn.
- Auglýsing -