- Auglýsing -
- Auglýsing -

Bikarmeistararnir féllu úr keppni í Vestmannaeyjum

Elmar Erlingsson, ÍBV, og félagar í ÍBV eru komnir í undanúrslit í Poweradebikarnum. Mynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -

ÍBV varð fyrst liða til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum Poweradebikars karla í handknattleik með sjö marka sigri á Aftureldingu, 34:27, í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum í dag. ÍBV var marki yfir að loknum fyrri hálfleik, 15:14. Bikarmeistarar síðasta árs eru þar með úr leik.

Afturelding byrjaði leikinn betur og hafði yfirhöndina framan af. Á tíu mínútna markalausum kafla Mosfellinga skoruðu Eyjamenn fimm mörk í röð og komust yfir, 9:6, þegar um tíu mínútur voru til loka fyrri hálfleiks.

Aftureldingarliðið náði aldrei yfirhöndinni í leiknum eftir það. Þótt aðeins drægi saman með liðunum undir lok hálfleiksins dugði það gestunum lítt.

Í síðari hálfleik tókst Aftureldingu að minnka muninn í 19:18. Daniel Esteves Vieira leikmaður ÍBV fékk beint rautt spjald fyrir brot á Þorsteini Leó Gunnarssyni, lang atkvæðamesta leikmanni Aftureldingar. Það varð til þess að leikmenn ÍBV blésu í herlúðra. Arnór Viðarsson skoraði fjögur mörk í röð og kom ÍBV fimm mörkum yfir, 23:18. Segja má að Mosfellingar hafi ekki borið sitt barr eftir það. Fimm einn vörn ÍBV reyndist Aftureldingarmönnum erfið auk þess sem Pavel Miskevich varði vel í mark ÍBV.

Pavel Miskevich markvörður ÍBV, er mikill stemningsmaður. Mynd/Eyjólfur Garðarsson

Sjö og hálfri mínútu fyrir leikslok fékk Þorsteinn Leó sína þriðju brottvísun þegar hann skaut í höfuð Miskevich í opnu færi. Þá var staðan nær því töpuð hvort sem er.

Elmar Erlingsson átti stórleik fyrir ÍBV. Auk sex marka átti hann níu stoðsendingar. Arnór átti fimm. Dagur Arnarsson skoraði fimm mörk auk fjögurra stoðsendinga samkvæmt kokkabókum HBStataz.

Þorsteinn Leó var nær óstöðvandi. Hann skoraði níu mörk. Birgir Steinn Jónsson átti sjö stoðsendingar.

Fleiri leikir standa fyrir dyrum

Klukkan 16 hefst leikur Stjörnunnar og KA í átta liða úrslitum. Annað kvöld verður haldið áfram að leika í átta liða úrslitum Poweradebikarsins þegar Haukar og FH eigast við. Á miðvikudag lýkur átta liða úrslitum með leik Vals og Selfoss.

Mörk ÍBV: Arnór Viðarsson 6, Elmar Erlingsson 6/3, Dagur Arnarsson 5, Kári Kristján Kristjánsson 5, Ívar Bessi Viðarsson 3, Gabríel Martinez Róbertsson 2, Daniel Esteves Vieira 2, Andrés Marel Sigurðsson 2, Gauti Gunnarsson 1, Sigtryggur Daði Rúnarsson 1.
Varin skot: Pavel Miskevich 6, 54,5% – Petar Jokanovic 5.

Mörk Aftureldingar: Þorsteinn Leó Gunnarsson 9, Blær Hinriksson 6/6, Árni Bragi Eyjólfsson 3, Ihor Kopyshynskyi 3, Jakob Aronsson 2, Stefán Magni Hjartarson 2, Birgir Steinn Jónsson 1, Birkir Benediktsson 1.
Varin skot: Brynjar Vignir Sigurjónsson 6, 21,4% – Jovan Kukobat 1, 12,5%.

Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -