Bikarmeistarar Vals skriðu áfram í átta liða úrslit í Poweradebikarnum í handknattleik karla í kvöld með þriggja marka sigri á Gróttu, 29:26, í N1-höllinni á Hlíðarenda. Valsmanna bíður viðureign við Fram í átta liða úrslitum keppninnar 18. desember.
Grótta var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 17:13, gegn Valsliðinu sem náði sér engan veginn á strik. Mistökin voru mörg og varnarleikur og markvarsla nær engin auk þess sem pirringur var í Valsmönnum sem m.a. létu reka sig út af fyrir þær sakir.
Gróttumenn voru baráttuglaðir í kvöld. Kappið var oft meira en forsjáin. Eftir fremur jafnan fyrri hálfleik þá skutust þeir framúr á síðustu mínútum hálfleiksins og voru með verðskuldað forskot í hálfleik, 17:13.
Hertu upp hugann
Valsmenn hertu upp hugann í síðari hálfleik. Þeir jöfnuðu fljótlega muninn og segja má að viðureignin hafi verið í járnum allt þar til á síðustu mínútum. Varnarleikur Vals batnaði og Björgvin Páll Gústavsson tók við sér í markinu eftir að hafa verið daufur lengi vel. Valur virtist vera að ná tökum á leiknum þegar liðið náði þriggja marka forskoti sex mínútum fyrir leikslok. Gróttumenn skoruðu í kjölfarið tvö mörk í röð og áttu möguleika á að jafna metin, 27:27, en lánaðist það ekki. Það var fremur þungt yfir Valsliðinu að þessu sinni sem oftast hefur leikið betur en í kvöld.
Fóru illa að ráði sínu
Gróttumenn fóru illa að ráði sínu með fjölda tæknifeila í sóknarleiknum, ekki síst í síðari hálfleik þegar liðinu tókst aðeins að skora níu mörk. Baráttuandinn var fyrir hendi en fleira vantaði þegar öllu var á botninn hvolft.
Sjá einnig:
Bikarmeistararnir skriðu áfram í átta liða úrslit
Erum ekki ennþá komnir í jólafrí
Mörk Vals: Magnús Óli Magnússon 9, Allan Norðberg 5, Agnar Smári Jónsson 3, Úlfar Páll Monsi Þórðarson 3, Bjarni Í Selvindi 2, Kristófer Máni Jónasson 2/2, Miodrag Corsovic 2, Andri Finnsson 1, Viktor Sigurðsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 12, 31,6%.
Mörk Gróttu: Atli Steinn Arnarson 6, Bessi Teitsson 5, Jón Ómar Gíslason 4/2, Gunnar Dan Hlynsson 3, Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha 2, Sæþór Atlason 2, Ari Pétur Eiríksson 1, Ágúst Ingi Óskarsson 1, Antoine Óskar Pantano 1, Kári Kvaran 1.
Varin skot: Magnús Gunnar Karlsson 9, 24,3%.
Tölfræði HBStatz.
Handbolti.is var á Hlíðarenda og fylgdist með viðureign Vals og Gróttu í textalýsingu hér fyrir neðan.