- Auglýsing -
Ekkert hik er á liðsmönnum Kórdrengja sem tóku þátt í Grill66-deild karla í fyrsta sinn á nýliðnu keppnistímabili. Kórdrengir höfnuðu í 9. sæti deildarinnar og léku í undanúrslitum umspils í Olísdeildinni við ÍR en máttu bíta í það súra epli að falla úr leik eftir tvo hörkuleiki. Fyrri leikurinn var hnífjafn og þurfti framlengingu til að knýja fram úrslit.
Forsvarsmenn Kórdrengja eru þegar byrjaðir leiða hugann að næsta keppnistímabili. Þeir hyggjast styrkja lið sitt fyrir átökin sem framundan eru. Einnig heldur þjálfari þeirra, Róbert Sighvatsson, áfram við stjórvölin eftir því sem Hinrik Geir, forvígismaður Kórdrengjaliðsins, staðfesti í skilaboðum til handbolta.is í morgun.
Kórdrengir fengu þátttökurétt í Grill66-deildinni á ellefu stundu á síðasta sumri. Þeir unnu fimm leiki, gerðu eitt jafntefli og töpuðu 14 viðureignum í deildinni.
- Auglýsing -