- Auglýsing -

Birgir Steinn er kominn í toppaðstæður hjá Sävehof

- Auglýsing -


„Aðstæður hér eru eins og best verður á kosið. Ég vissi það svo sem eftir að ég kom hingað í heimsókn í febrúar. Félagið byggir á því að bjóða topp aðstæður og sem líkastar liðunum í Þýskalandi og öðrum stórum klúbbum í Evrópu,“ segir Birgir Steinn Jónsson handknattleiksmaður sem er að koma sér fyrir hjá sænska úrvalsdeildarliðinu IK Sävehof. Birgir Steinn hóf æfingar með félaginu í upphafi vikunnar en síðustu tvö ár hefur hann leikið með Aftureldingu. Áður var Birgir Steinn hjá Gróttu, Fjölni og Stjörnunni.


„Ég fór út til Svíþjóðar 16 júlí. Ákvað að koma aðeins fyrr til að geta komið mér fyrir í íbúðinni og skoðað bæinn almennilega,“ sagði Birgir Steinn léttur en IK Sävehof er með bækistöðvar í Partille, rétt við Gautaborg.

Best aðstaðan í Svíþjóð

„Höllin er mjög stór og flott, lyftingaraðstaðan frábær og margt fólk að vinna í kringum klúbbinn og að utanumhaldi liðsins. Þannig að aðstæður hér eru mun betri en heima, þó þær séu auðvitað góðar þar einnig. Ég held að Sävehof sé með bestu aðstæðurnar og utanumhald af liðunum í sænsku deildinni,“ sagði Birgir Steinn.

Birgir Steinn Jónsson leikmaður IK Sävehof. Ljósmynd/Guðmundur Svansson
IK Sävehof hefur á síðustu árum verið með eitt af betri handknattleiksliðum Svíþjóðar, jafnt í karla- sem kvennaflokki. Síðast unnu bæði lið félagsins sænska meistaratitilinn vorið 2024. Kvennaliðið hefur 17. sinnum unnið meistaratitilinn, sem er met, og karlaliðið átta sinnum. 

Mánuður í bikarkeppnina

Næsti mánuður hjá Birgir Steini fer í æfingar og síðan æfingaleiki þegar á leið. Keppnistímabilið hefst með bikarkeppninni 20. ágúst. Eins og undanfarin ár fer bikarkeppnin af stað með riðlakeppni þar sem leikið er heima og að heiman í fjögurra liða riðlum þar sem tvö lið halda áfram úr hverjum riðli á næsta stig.

Forkeppni Evrópudeildar

„Deildin byrjar ekki fyrr en 17. september, sem er aðeins í seinna lagi. Við eigum reyndar tvo leiki um mánaðarmótin ágúst-september gegn Malmö í forkeppni Evrópudeildarinnar svo það verður nóg að gera,“ segir Birgir Steinn.

Meistaranám með handbolta

Birgir Steinn lætur ekki handboltann nægja. Hann ætlar að halda áfram með masternám sem hann hóf fyrir ári.

„Ég skráði mig í þrjá til fjóra áfanga í skiptinámi hér úti til að halda því áfram. Ætla að reyna að taka það með handboltanum ef ég hef tíma fyrir það. Það verður auðvitað bara að koma í ljós hvort ég geti það en mér finnst fínt að hafa eitthvað annað að gera og geta kúplað mig aðeins úr handboltanum öðru hvoru,“ sagði Birgir Steinn Jónsson handknattleiksmaður hjá IK Sävehof.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -