Landsliðsmaðurinn og markahæsti leikmaður þýsku 1. deildarinnar í handknattleik, Bjarki Már Elísson, kveður Lemgo þegar samningur hans rennur út um mitt þetta ár. Lemgo staðfestir tíðindin í morgun og greinir um leið frá að samið hafi verið við eftirmann Árbæingsins eldfljóta.
Ekki hefur verið greint frá hvert hugur Bjarka Más stefnir en ljóst má vera að hann hefur eitthvað fast í hendi úr því að hann hefur kosið að semja ekki við Lemgo á nýjan leik. Á síðasta vetri var Bjarki Már orðaður við danska meistaraliðið Aalborg Håndbold sem Aron Pálmarsson leikur með.
Framtíð Bjarka Más skýrist væntanlega fljótlega.
Bjarki Már gekk til liðs við Lemgo sumarið 2019 og er því langt kominn með þriðja keppnistímabil sitt hjá félaginu. Hann varð markakóngur liðsins 2020 og lykilmaður í sigri Lemgo í þýsku bikarkeppninni á síðustu leiktíð en það var í fyrsta sinn í 19 ár sem Lemgo vann keppnina. Hann var enn á ný á meðal markahæstu leikmanna deildarinnar á síðasta tímabili en það setti strik í reikninginn að Bjarki Már missti af leikjum vegna veikinda.
Bjarki Már er í íslenska landsliðinu sem verður í eldlínunni á Evrópumeistaramótinu sem hefst í Ungverjalandi og Slóvakíu um miðjan þennan mánuð.
Eftirmaður Bjarka Más hjá Lemgo verður svissneski landsliðsmaðurinn Samuel Zehnder sem nú leikur undir stjórn Aðalsteins Eyjólfssonar hjá Kadetten Schaffhausen í Sviss. Zehnder hefur þegar skrifað undir tveggja ára samning við Lemgo sem tekur gildi í sumar.