Bjarki Már Elísson var markahæstur hjá bikarmeisturum Lemgo í kvöld þegar liðið vann sinn annan leik í þýsku 1. deildinni í röð eftir að það varð bikarmeistari á föstudaginn var. Lemgo vann Bergischer HC í kvöld í Phoenix Contact Arena í Lemgo, 31:23, eftir að hafa verið með fimm marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 17:12.
Bjarki Már skoraði sjö mörk, þar af voru þrjú af vítalínunni. Arnór Þór Gunnarsson lék ekki með Bergischer HC vegna meiðsla.
Oddur Gretarsson og félagar í Balingen-Weilstetten eru sem fyrr á hættulegum stað í deildinni eftir jafntefli, 27:27, á móti botnliðinu Coburg á útivelli. Coburg var með þriggja marka forskot þegar síðari hálfleikur var hálfnaður. Oddur skoraði eitt mark úr vítakasti en hann glímir við meiðsli og leikur lítið sem ekkert með þess dagana.
Balingen er áfram í 16. sæti deildarinnar, stigi á undan Ludwigshafen sem krækti í stig á móti Leipzig í kvöld á heimavelli. Ludwigshafen er sem fyrr í fallsæti en litið má breytast á lokasprettinum til þess að liðið hafi sætaskipti við Balingen eða GWD Minden. Hvert lið á fjóra leiki eftir í deildinni.
Staðan: