Bjarki Már Elísson var markahæstur hjá ungverska meistaraliðinu One Veszprém í kvöld með átta mörk þegar liðið vann stórsigur á Kolstad, 43:29, í Meistaradeild Evrópu. Leikurinn fór fram í Þrándheimi. One Veszprém var fjórum mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 19:15.
Bjarki Már nýtti öll sín markskot til þess að skora. Af mörkunum átta skoraði hann tvö úr vítaköstum. Króatainn Ivan Martinovic var næstur á eftir Bjarka Má með sjö mörk.
Sigvaldi meiddur
Sigvaldi Björn Guðjónsson lék ekki með Kolstad. Hann er ennþá fjarverandi vegna meiðsla sem hann varð fyrir á æfingu íslenska landsliðsins í München fyrir meira en hálfum mánuði.
Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði þrjú mörk og gaf tvær stoðsendingar fyrir Kolstad. Simon Jeppsson var markahæstur með fimm mörk.
Sigurjón Guðmundsson var annar markvörður Kolstad í leiknum. Hann fékk stuttan tíma til að spreyta sig í leiknum og varði ekki skot.
Fjórði sigurinn í sjö leikjum
Viðureign Kolstad og One Veszprém var sú eina sem fram fór í A-riðli Meistaradeildarinnar í kvöld. Eins og málum er háttað þá er One Veszprém í þriðja sæti riðilsins með átta stig eftir sjö leiki. Füchse Berlin er efst með 12 stig og Aalborg Håndbold er næst á eftir með 10 stig.
Kolstad er næst neðst með aðeins einn vinning í sjö leikjum. Aðeins Dinamo Búkarest stendur lakar að vígi.
Naumur sigur hjá PSG
Elohim Prandi var markahæstur hjá PSG sem tókst af harðfylgi að vinna GOG, 31:28, í Arena Svendborg en liðin eiga sæti í B-riðli Meistaradeildarinnar. Prandi skoraði átta mörk. Egyptinn Yahia Khaled Fathy Omar var næstur með sex mörk.
GOG var marki yfir að loknum fyrri hálfleik, 18:17.
Frederik Bjerren skoraði níu mörk fyrir GOG og Hjalte Lykke og Óli Mittún voru næstir með fjögur mörk hvor.
PSG og GOG eru með sex stig hvort í fimmta og sjötta sæti B-riðils.
Tveir leikir fara fram í B-riðli síðar í kvöld.
Staðan í A-riðli:
Staðan í B-riðli:



