- Auglýsing -
- Auglýsing -

Bjarki Már markahæstur – Veszprém í undanúrslit – myndskeið

Bjarki Már Elísson leikmaður ungverska stórliðsins Veszprém. Mynd/P. Roland - Facebooksíða Veszprém
- Auglýsing -

Bjarki Már Elísson var markahæstur í fyrsta opinbera keppnisleik sínum með ungverska liðinu Veszprém í kvöld þegar liðið vann Tatran Presov frá Slóvakíu með 10 marka mun, 35:25, í átta liða úrslitum Austur-Evrópudeildarinnar (SEHA-league) í handknattleik. Leikurinn fór fram í Slóvakíu.


Bjarki Már skoraði sjö mörk í átta skotum. Ekkert markanna skoraði hann úr vítaköstum, sex úr vinstra horni og eitt eftir hraðaupphlaup. Óhætt er að segja að Bjarki Már hafi stimplað sig inn af krafti en hann kom til Veszprém í sumar eftir þriggja ára veru hjá Lemgo í Þýskalandi.


Hér fyrir neðan er myndskeið af fyrsta marki Bjarka í leiknum í kvöld.


Sænski línumaðurinn Andreas Nilsson var næst markahæstur hjá Veszprém með sex mörk. Marco Antl skoraði níu mörk fyrir Tatran Presov sem er meistaralið Slóvakíu.


Viðureign Tatran Presov og Veszprém var sú fyrsta í átta liða úrslitum Austur-Evrópudeildarinnar. Keppninni var frestað í mars eftir innrás rússneska hersins í Úkraínu. Næstu daga fara þrír leikir til viðbótar fram í átta liða úrslitum áður en úrslitahelgin fer fram í Zadar í Króatíu 2. til 4. september.


Austur-Evrópudeildin verður með breyttu sniði á komandi vetri. Þá taka eingöngu félagslið frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi þátt en aðal bakhjarl keppninnar er og hefur verið rússneska orkufyrirtækið Gazprom.


- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -