Bjarki Már Elísson landsliðsmaður í handknattleik hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við ungverska meistaraliðið Telekom Veszprém. Félagið segir frá þessu í dag. Samningurinn er gildir til ársins 2026 og tekur við af núverandi samningi sem tók gildi þegar Bjarki Már kvaddi Lemgo í Þýskaland eftir frábær ár og flutti með fjölskyldu til Ungverjalands til þess að leika fyrir stórlið Veszprém.
Bjarki Már verður vafalaust í íslenska EM-hópnum sem tilkynntur verður á mánudaginn eftir því sem handbolti.is kemst næst. Leikmenn eru ýmist að munstra sig á útgerðina og eða að lýsa því yfir að þeir taki ekki þátt áður en þjálfarinn upplýsir um valið.
Bjarki Már er 33 árs gamall. Hann lék í Þýskalandi frá 2013 til 2022 með Eisenach, Füchse Berlin og Lemgo. Hann varð markakóngur þýsku 1. deildarinnar 2020. Heima á Íslandi lék Bjarki Már með Fylki, Selfossi og HK og varð Íslandsmeistari með Kópavogsliðinu 2012. Alls hefur Bjarki Már leikið 105 landsleiki og skorað í þeim 365 mörk.
Bjarki Már varð ungverskur meistari og bikarmeistari í vor á sínu fyrsta tímabilinu með liðinu. Telekom Veszprém er efst og taplaust í ungversku 1. deildinni um þessa mundir auk þess að standa í ströngu í Meistaradeild Evrópu eins og undanfarin ár.