Bjarki Már Elísson varð ungverskur meistari í handknattleik annað árið í röð í gærkvöld með liði sínu Telekom Vezsprém. Meistarabikarinn fór á loft í Pick Arena í Szeged að loknum öðrum sigri Veszprém á Pick Szeged, 34:30, í úrslitum. Bjarki Már skoraði ekki mark í leiknum.
Veszprém fór langt með að tryggja sér meistaratitilinn með sjö marka sigri á heimavelli á síðasta föstudag, 35:28. Fjögurra marka sigurinn í gærkvöld var aldrei í hættu.
Alls lék Telekom Veszprém 31 leik í deildinni og í bikarkeppninni í Ungverjalandi á keppnistímabilinu og fór með sigur úr býtum í þeim öllum.
Þetta var í 28. sinn sem Telekom Veszprém vinnur ungverska meistaratitilinn frá því að sá fyrsti vannst 1985.
Telekom Veszprém var einnig bikarmeistari í vor og deildarmeistari.
Bjarki Már flutti til Ungverjalands og gekk til liðs við Veszprém sumarið 2022. Hann skrifaði undir nýjan samning við félagið í desember á síðasta ári. Samningurinn tryggir honum veru hjá félaginu til næstu tveggja ára og væntanlega fleiri meistaratitla.
Sjá einnig:
Bjarki Már með ungversku meisturunum fram til 2026