Bjarki Már Elísson skoraði fimm mörk þegar Veszprém vann HE-DO Gyöngyös B.Braun með 15 marka mun, 40:25, í ungversku 1. deildinni í handknattleik í dag. Aron Pálmarsson lék ekki með vegna meiðsla ekkert fremur en Frakkinn Hugo Descat. Eins og tölurnar gefa til kynna var sigurinn afar öruggur.
Ekki kemur fram hvers eðlis meiðsli Arons eru en hann var að glíma við meiðsli síðustu vikurnar sem hann var með FH áður en samið var við Veszprém í síðasta mánuði. Aron var með Veszprém í leik í Meistaradeild Evrópu í miðri viku og tók einnig þátt í viðureign í ungversku deildinni um síðustu helgi.
Janus Daði með fimm
Janus Daði Smárason lék afar vel með Pick Szeged í einkar öruggum sigri liðsins í heimsókn til PLER í Búdapest í dag, 41:27. Selfyssingurinn skoraði fimm mörk úr sex skotum og átti að vanda nokkrar stoðsendingar.
Kemur saman á mánudag
Íslenska landsliðið kemur saman til æfinga á mánudaginn. Þremenningarnir eru í hópnum sem valinn var á dögunum til leikjanna við Bosníu á miðvikudag í Laugardalshöll og gegn Georgíu í Tbilisi eftir rúma viku. Leikirnir eru liður í undankeppni Evrópmótsins 2026.
Stöðuna í ungversku 1. deildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.