- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Björgvin Páll er mentor markvarða hjá Bergischer HC

Björgvin Páll Gústavsson, markvörður Vals og íslenska landsliðsins. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Björgvin Páll Gústavsson, markvörður Vals, er þjálfari markvarða þýska 1. deildarliðsins Bergischer HC. Tók hann við starfinu í sumar. Fer það að stórum hluta fram í gegnum tölvu, fjarfundarbúnað og aðra nútímatækni. Hann hefur þó farið út og verið hjá félaginu um skeið og reiknar með að fara aftur út áður en árið verður á enda.

Byrjaði í sumar

„Ég fékk fyrirspurn frá mínu gamla félagi í sumar hvort ég vildi taka að mér það að vera þjálfari eða mentor markvarðanna hjá mínu gamla liði. Niðurstaðan varð sú að ég tók þetta að mér og við fundum fína lausn sem við byrjuðum þá að vinna eftir þótt formlega hafi ekki greint frá þessu fyrr en á dögunum,“ sagði Björgvin Páll þegar handbolti.is heyrði í honum í morgun.


Björgvin Páll segir þetta nýja starf falla vel að öðru sem hann er fást við. Vitanlega hafi hann ekki tekið það að sér nema að hafa rætt það við stjórnendur Vals áður en nokkuð var ákveðið.


Björgvin Páll var markvörður hjá Bergischer (sameiginlegt lið Wuppertal og Solingen) frá 2013 til 2017 og lék undir stjórn sama þjálfara og er enn við stjórnvölinn. Eins var annar af núverandi markvörðum liðsins samherji Björgvin Páls á sínum tíma.

Þekkir vel til

„Ég þekki vel til Bergsicher en það eru svipaðar áherslur í leik liðsins og þegar ég var þar á sínum tíma. Dagsdaglega þá er ég samskiptum við markverðina í gegnum tölvuna eða síma. Við förum yfir væntanlega leiki. Þegar þeim er lokið þá förum við yfir málin, frammistöðu þeirra, hvað var vel gert og hvað hafi mátt betur fara. Kryfjum leikina til mergjar.


Einnig set ég upp æfingar og áhersluatriði fyrir viku í einu sem aðstoðarþjálfarinn fylgir síðan eftir,“ segir Björgvin og bætir við að til þessa sé mikil ánægja með samstarfið og markverðir Bergischer hafi staðið sig vel fram til þessa.

Fyrir keppnistímabilið var Björgvin Páll ytra í nokkra daga. „Þá fórum við yfir minn þankagang í þjálfun og hvaða æfingar ég myndi leggja áherslu á,“ segir Björgvin Páll og bæti við að þetta starf falli vel að öðru því sem hann er fást við.

Fellur vel að öðru

„Þetta smellpassar við það starf sem ég er í hjá Val þar sem ég er leiðbeina markvörðum félagsins. Um leið þróa ég minn leik áfram og er Sakai til halds og trausts. Þetta styður hvað annað.


Um leið er ég kannski að stíga mín fyrstu skref í draumadjobbinu eftir að ferlinum verður lokið. Hvenær sem það verður,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson sem elur með sér að hægt verði að koma á laggir markmannsskóla hjá Val þegar fram líða stundir.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -