Þrátt fyrir að Björgvin Páll Gústavsson markvörður Vals og íslenska landsliðsins sé aðeins 37 ára gamall er hann að mati Handknattleikssambands Evrópu (EHF) einn þriggja bestu „gamlingjanna“ í Evrópudeildinni í handknattleik þegar horft er til baka yfir sex fyrstu umferðirnar.
Kosning í nokkrum flokkum leikmanna og liða í Evrópudeildinni stendur yfir á vefsíðu EHF. Björgvin Páll er eini Íslendingurinn sem er tilnefndur í kjörinu og það í þessum virðulega flokki, einn þriggja bestu í hóp þeirra eldri.
Auk Björgvins Páls stendur valið um Fahrudin Melic, leikmann RK Nexe frá Króatíu, og Petar Djordjic hjá portúgalska liðinu SL Benfica. Melic og Djordjic eru árinu eldri en Björgvin Páll og hafa eins og hann margra fjöruna sopið á handknattleiksvellinum.
Þeir sem kjósa að veita Björgvin Páli brautargengi í kjörinu geta smellt hér og skrunað niður eftir síðunni.