Björgvin Páll Gústavsson, markvörður, skoraði sitt 25. mark fyrir landsliðið í gær og um leið 11. mark sitt á heimsmeistaramóti þegar hann kom íslenska landsliðnu yfir, 32:13, á 47. mínútu leiksins við Kúbu. Vafalaust er Björgvin Páll einn allra markahæsti handknattleiksmarkvörður heims, hvort heldur samanlagt eða þegar aðeins er litið til heimsmeistaramóta. Hann er einnig eini íslenski markvörðurinn sem skorað hefur í leik á HM.
Björgvin Páll stóð fyrst í marki íslenska landsliðsins á HM 2011 í sex marka sigurleik á Svíum, 32:26, í Nörrköping. Hann skoraði mark í fyrsta sinn á heimsmeistaramóti gegn Spánverjum 12. janúar 2017, í 27:21 tapleik. Björgvin Páll bætti síðan við öðru marki á sama móti í jafntefli við Norður Makedóníu 19. janúar, 27:27. Sá leikur fór líka fram í Metz.
Björgvin Páll lét eitt marka nægja á HM 2019 í síðasta leik Íslands á mótinu gegn Brasilíu í þriggja marka tapi í Lanxess Arena í Köln 23. janúar, 32:29.
Björgvin Páll að búa sig undir að verja vítakast í leiknum við Kúbu – Ljósmyndir/Hafliði Breiðfjörð
Tvisvar skorað tvö mörk í leik
Hann skoraði þrjú mörk á HM í Egyptalandi 2021, þar af tvö í sama leiknum á móti Sviss í tapi 20:18 í Kaíró 20. janúar. Á HM í Svíþjóð fyrir tveimur árum skoraði Björgvin Páll fjögur mörk, þar af aftur tvö mörk í sama leiknum, gegn Grænhöfðaeyjum í Gautaborg 18. janúar, 40:30.
48 af 49 leikjum í röð
Leikurinn við Kúbu í gær var 277. landsleikur Björgvin Páls frá 2003 og 48. leikurinn á heimsmeistaramóti af þeim 49 sem íslenska landsliðið hefur leikið eftir að hann kom inn í landsliðið á HM 2011 sem var hans fyrsta heimsmeistaramót. Eini leikurinn sem Björgvin Páll var utan liðs á þessu tímabili var viðureign við Portúgal á HM 2021 í Egyptalandi. Ágúst Elí Björgvinsson og Viktor Gísli Hallgrímsson sáu um að verja markið í þeim leik sem vannst, 25:23.
Næst leikreyndasti markvörður Íslands á heimsmeistaramótum er Guðmundur Hrafnkelsson með 44 HM-leiki frá 1990 til og með HM 2003.