Íslensku landsliðskonurnar Andrea Jacobsen, Díana Dögg Magnúsdóttir og Elín Rósa Magnúsdóttir leika með Blomberg-Lippe í úrslitahelgi þýsku bikarkeppninnar um miðjan mars á næsta ári. Blomberg-Lippe vann stórsigur á SV Union Halle-Neustadt, 35:17, í átta liða úrslitum í kvöld á heimavelli. Næsti leikur Blomberg-Lippe verður einnig á heimavelli gegn Val í síðari umferð forkeppni Evrópudeildarinnar á laugardaginn.
Bensheim-Auerbach og Borussia Dortmund öðluðust einnig sæti í undanúrslitum þýsku bikarkeppninnar í kvöld. Hvert fjórða liðið verður með Porsche-Arena 14. og 15 mars kemur í ljós annað kvöld þegar VfL Waiblingen og Thüringer HC hafa gert upp reikningana.
Þetta verður annað tímabilið í röð sem Blomberg-Lippe tekur þátt í úrslitahelgi þýsku bikarkeppninnar.
Tölfræði íslensku landsliðskvennanna í sigurleiknum í kvöld:
Díana Dögg: 4 mörk, 2 stoðsendingar, 2 sköpuð færi, 1 stolinn bolti, 3 fráköst.
Andrea: 3 mörk, 2 stoðsendingar, 1 stolinn bolti, 1 sinni vikið af leikvelli.
Elín Rósa: 1 mark, 1 stoðsending, 1 skapað færi.



