Bosníumenn fögnuðu naumum sigri á Grikkjum í kvöld, 23:22, í hinum leika 3. riðils undankeppni EM karla í handknattleik. Lið þjóðanna eru með Íslandi og Georgíu í riðli í keppninni. Grikkir áttu sókn á síðustu mínútu eftir að Domagoj Alilovic skoraði 23. mark Bosníu. Grikkjum tókst ekki að nýta sóknina, vopnin snerust í höndum þeirra, og Bosníumenn náðu að halda boltanum síðustu sekúndurnar eftir að þeir unnu hann.
Bosníumenn voru tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik. Í síðari hálfleik sóttu Grikkir í sig veðrið þegar á leið og komust tvisvar sinnum yfir, 19:18 og 20:19. Þeim tókst ekki að fylgja þessum kafla eftir í Cazin í Bosníu þar sem heimaliðið fékk ríkulegan stuðning.
Mislav Grgic var markahæstur hjá bosníska landsliðinu með sjö mörk. Marko Panic skoraði fimm mörk. Dimitros Tziras skoraði sjö fyrir Grikki og Achilleas Toskas var næstur með fimm mörk.
Ísland er þar með efst í þriðja riðli með fjögur stig og mætir Grikkjum í næstu tveimur leikjum undankeppninni sem fram fer um miðjan mars. Bosníumenn og Grikkir hafa tvö stig hvorir en Georgíumenn reka lestina án stiga.
Undankeppni EM karla “26: úrslit leikja