Kvennalandsliðið í handknattleik tapaði með þriggja marka mun fyrir norska B-landsliðinu í síðari vináttuleiknum á Ásvöllum í dag, 29:26. Síðasta stundarfjórðung leiksins gekk flest á afturlöppunum hjá liðinu. Það missti niður sjö marka forystu, 22:15, á þessum kafla. M.a. skoraði norska liðið 10 mörk gegn tveimur og komst yfir, 24:25, og gaf ekkert færi á sér eftir það.
Staðan að loknum fyrri hálfleik var 16:11, Íslandi í vil. Varnarleikurinn var mjög góður og sóknarleikurinn gekk sömuleiðis afar vel.
Eftir fimm marka íslenskan sigur í fyrri viðureigninni á fimmtudaginn, 31:26, virtist stefna í svipaða niðurstöðu á Ásvöllum í kvöld þegar hlutirnir fóru að ganga á afturlöppunum. Hver sóknin rak aðra hjá íslenska landsliðinu án marks með þeim afleiðingum að þær norsku gengu á lagið.
Því miður slæmur endir á afar góðum leik íslenska landsliðsins í 45 mínútur sem svo sannarlega virtist ætla að gefa byr í seglin fyrir verkefnið gegn Ungverjum í næsta mánuði. Þá verður farseðill á HM lagður undir.
Mörk Íslands: Sandra Erlingsdóttir 5/2, Thea Imani Sturludóttir 4, Andrea Jacobsen 3, Perla Ruth Albertsdóttir 3, Þórey Rósa Stefánsdóttir 3, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 2, Hildigunnur Einarsdóttir 2, Steinunn Björnsdóttir 2, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 1/1, Lilja Ágústsdóttir 1.
Varin skot: Elín Jóna Þorsteinsdóttir 5/1, 21,7% – Hafdís Renötudóttir 5, 31,3%.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.