Handknattleiksdeild Þórs hefur ráðið bræðurna Geir Kristinn og Sigurpál Árna Aðalsteinssyni þjálfara karlaliðs félagsins sem leikur í Grill66-deildinni. Akureyri.net segir frá ráðningunni í dag. Geir og Sigurpáll taka við af Stevce Alusovski sem leystur var frá störfum í síðustu viku. Þeir eru ráðnir til loka keppnistímabilsins.
„Það var ekki á stefnuskránni að fara út í þjálfun, ég get sagt það fyrir hönd okkar beggja. En það var hart sótt að okkur, og okkur rann einfaldlega blóðið til skyldunnar,“ sagði Geir Kristinn við Akureyri.net.
Hafa komið nærri þjálfun hjá Þór
Bræðurnir eru af mikilli Þórsfjölskyldu og léku báðir með meistaraflokksliði félagsins í handbolta á árum áður. Sigurpáll Árni þjálfaði Þórsliðið frá 2001 til 2005 og Geir Kristinn þjálfaði 2. flokk Akureyrar um nokkurra ára skeið. Geir Kristinn hefur verið formaður Íþróttabandalags Akureyrar í nokkur ár en víkur af þeim vettvangi meðan hann þjálfar Þórsliðið.
Einn leikur í viðbót
Halldór Örn Tryggvason, sem hljóp tímabundið í skarðið við þjálfun Þórs þegar Alusovski hætti, stýrir liðinu gegn ungmennaliði Selfoss á föstudaginn áður en Sigurpáll og Geir taka til óspilltra málanna. Halldór Örn stýrði Þór til sigurs á ungmennaliði Fram í Úlfarsárdal á síðasta föstudag.
Þór er í fimmta sæti af 10 liðum Grill 66-deildar með sjö stig eftir átta leiki.