Kapphlaup Noregsmeistarar Kolstad og Elverum um efsta sæti deildarinnar hélt áfram í dag. Íslendingarnir voru atkvæðamiklir hjá Kolstad í fimm marka sigri liðsins, 36:31, á Bergen á heimavelli. Arnór Snær Óskarsson skoraði fjögur mörk og bróðir hans Benedikt Gunnar tvö. Sveinn Jóhannsson skoraði þrisvar.
Bræðurnir gáfu tvær stoðsendingar hvor í leiknum. Sigvaldi Björn Guðjónsson hélt sig til hlés að þessu sinni. Hann hefur átti í meiðslum síðustu vikur.
Þjálfari Haslum tók pokann sinn
Kolstad er áfram í öðru sæti, stigi á eftir Elverum sem vann Haslum á útivelli, 39:28. Haslum sagði þjálfaranum Ole-Jacob Borch upp störfum í dag en ungt lið félagsins hefur átt erfitt uppdráttar í vetur. Gamli refurinn Erlend Mamelund tekur tímabundið við þjálfun. Ekki í fyrsta sinn sem hann hleypur í skarðið við þjálfun liðs Haslum
Dagur með tvö
Dagur Gautason skoraði tvö mörk þegar ØIF Arendal tapaði með með minnsta mun, 29:28, í heimsókn til Sandnes. Arendal er í áttunda sæti með 14 stig að loknum 15 leikjum. Sandnes í er 11. sæti af 14 liðum.
Slakur varnarleikur
Arfaslakur varnarleikur Drammenliðsins auðveldaði Ísaki Steinssyni ekki lífið í marki liðsins þegar það tapaði með átta marka mun á heimavelli frir Nærbø, 39:31. Ísak varði fjögur mörk, 18%, þann tíma sem hann stóð vaktina. Drammen er í sjötta sæti með 15 stig eftir 15 leiki.
Staðan í norsku úrvalsdeildinni:
Sigurjón öflugur í markaleik
Í 1. deildinni unnu Sigurjón Guðmundsson og liðsfélagar í Charlottenlund stórsigur á HK-72 Sande, 48:32, í mikilli markaveislu á heimavelli. Sigurjón varði 12 skot, 38%, á þeim tíma sem hann var á milli stanganna hjá Charlottenlund.
Charlottenlund er í fjórða sæti deildarinnar með 18 stig eftir 12 leiki. Liðið á leik til góða á efstu liðin þrjú, Sandefjord TIF, Viking TIF og Melhus.
Staðan í næst efstu deild: