Brasilíski markvörðurinn Emanuel Evangelista hefur fengið leikheimild með nýliðum Harðar frá Ísafirði og getur þar af leiðandi staðið vaktina í marki liðsins í kvöld þegar Hörður sækir ÍR heim í íþróttahúsið glæsilega í Skógarseli. Liðin mætast þá í 4. umferð Olísdeildar karla.
Evangelista er fyrsti Brasilíumaðurinn af fjórum sem fengið hefur leikheimild með Herði. Tilkynnt var um komu Evangelista 2. september.
Þór Akureyri hefur fengið grænt ljós á að tefla fram Norður Makedóníumanninum Kostadin Petrov í leikjum liðsins í Grill66-deild karla. Petrov, sem er línumaður, fékk leikheimild í dag hjá HSÍ eftir að hafa fengið atvinnu- og dvalarleyfi hér á landi.
Petrov hefur æft með Þórsliðinu og ætti þar með óhikað að geta leikið með þegar Þór sækir Kórdrengina heim á föstudagskvöld í 2. umferð Grill66-deildarinnar. Fyrr í vikunni hlutu félagaskipti Færeyingsins Jonn Rói Tórfinnsson til Þórs blessun hjá hlutaðeigandi.
Þriðji leikmaðurinn sem fékk leikheimild í dag er finnska skyttan Madeleine Lindholm. Hún gengur til liðs við Fram. Ekki er útilokað að Lindholm verði með liði Íslandsmeistaranna á miðvikudaginn í næstu viku þegar Fram sækir Val heim í 3. umferð Olísdeildar kvenna.