- Auglýsing -
- Auglýsing -

Brjálaður yfir að hafa ekki unnið leikinn

Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Ég er bara brjálaður yfir að hafa ekki unnið leikinn,“ sagði Hrannar Guðmundsson þjálfari karlaliðs Stjörnunnar í samtali við handbolta.is eftir naumt tap, 32:31, fyrir Fram í Olísdeildinni í gærkvöldi. Liðin mættust í Mýrinni í Garðabæ, heimavelli Stjörnunnar sem átti þess kost að jafna metin á síðustu sekúndum.

Áttum möguleika

„Ég hefði viljað fara með þriggja marka forskot inn í hálfleik. Við áttum alla möguleika á því vegna þess að við fórum illa með marktækifæri á sama tíma og við vorum í yfirtölu.

Upphafskaflinn í síðari hálfleik var einnig góður hjá okkur en því miður þá fengum við á okkur mörk yfir allan völlinn og leikurinn jafnaðist. Það er ólíkt okkur að fá mörk á okkur í sjö á móti sex. En eftir þessi mistök þá lékum við frábærlega í stöðunni sjö á móti sex,“ sagði Hrannar ennfremur í samtali við handbolta.is.

Fengum fín færi

Spurður hvað helst vantaði upp á hjá Stjörnunni á þeim kafla þegar Fram komst þremur til fjórum mörkum yfir eftir miðjan síðari hálfleik.

„Við fengum fín færi á þessum kafla en því miður þá klúðruðum við tækifærunum. Ef við hefðum skorað úr þeim tækifærum hefði staðan kannski orðið önnur,“ sagði Hrannar sem hefur áfram verk að vinna þar sem Stjarnan er í 10. sæti af 12 liðum deildarinnar eftir níu umferðir.

Við erum í framför

„Þótt einhverjir telji að um sé að ræða bras hjá okkur þá er það okkar mat að við séum í framförum. Handboltinn sem við leikum er hraður og skemmtilegur. Við höfum skorað að meðaltali vel yfir 30 mörk í hverjum leik upp á síðkastið.

Ég held að þetta hafi verið mjög frábær handboltaleikur. Miklar sviftingar og hraður leikur og mjög góður sóknarleikur en því miður þá féll þetta ekki með okkur þriðja heimaleikinn í röð,“ sagði Hrannar Guðmundsson þjálfari karlaliðs Stjörnunnar.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -