FH-ingurinn Brynjar Narfi Arndal varð í kvöld yngsti leikmaðurinn til þess að taka þátt í leik í efstu deild karla í handknattleik hér á landi, 14 ára og 229 daga gamall. Brynjar Narfi, sem fæddist 30. júní 2010, lék síðustu mínúturnar í leik Fjölnis og FH í Fjölnishöllinni. Aldrei fyrr hefur 14 ára gamall piltur tekið þátt í leik í efstu deild karla í handknattleik, eftir því sem næst verður komist.
Geir var sá yngsti
Brynjar Narfi sló þar með við meti sem Geir Guðmundsson átti. Geir var áður sá yngsti sem leikið hefur í efstu deild, 15 ára og 103 daga gamall þegar hann lék með Akureyri handboltafélagi gegn Stjörnunni 4. desember 2008.
Frá meti Geirs var greint í frétt mbl.is sem birt var 23. september 2016 rétt eftir að hinn 15 ára gamli Haukur Þrastarson hafði leikið í fyrsta sinn í efstu deild með Selfossi gegn Aftureldingu í 1. umferð. Haukur var þá 15 ára og 145 daga gamall.
Einar Baldvin og Ragnar
Í frétt mbl.is og einnig Morgunblaðsins sem birtist hér fyrir neðan segir ennfremur að KR-ingurinn Einar Baldvin Árnason hafi verið 15 ára og 114 daga gamall í leik með KR gegn Val í 1. apríl 1990 og Ragnar Jóhannsson, leikmaður Selfoss, var 15 ára og 138 daga gamall þegar hann kom fyrst við sögu í meistaraflokksleik með Selfossi 12. mars 2006.
Ragnar yngstur til að skora
Ragnar sá yngsti til að skora í efstu deild. Hann skoraði í sínum fyrsta leik og átti eftir að bæta mörgum mörkum við safnið á næstu árum.
Brynjar Narfi átti eitt markskot í leiknum í Fjölnishöllinni í kvöld en það missti marks, því miður.
Aron nærri ári eldri
Aron Pálmarsson var 15 ára og 223 daga gamall, nærri ári eldri en Brynjar Narfi, í fyrsta leik sínum fyrir meistaraflokk FH í efstu deild í apríl 2006. FH var í næst efstu deild leiktíðina á undan.
Annar Aron var 15 ára
Annar piltur sem var enn 15 ára þegar hann lék fyrst í efstu deild er Aron Einar Gunnarsson síðar fyrirliði landsliðsins í fótbolta. Hann vantaði um tvo mánuði upp á að verða 16 ára í febrúar 2005 þegar hann lék með Þór gegn Val.

Brynjar Narfi, sem er sonur Sigursteins Arndal og Ebbu Særúnar Brynjarsdóttur, hafði tvisvar verið á leikskýrslu hjá FH en ekki komið við sögu inni á leikvellinum fyrr en í kvöld. Eins og gefur að skilja er mikið efni á ferð.