FH-ingurinn Brynjar Narfi Arndal varð í gær sá yngsti til að skora mark í leik í efstu deild karla á Íslandsmótinu í handknattleik. Skeiki handbolta.is ekki mjög í samlagningunni í var Brynjar Narfi 15 ára og 81 dags gamall í gær, fæddur 30. júní 2010. Hann er þar með handhafi tveggja aldursmeta í efstu deild karla, Olísdeildini, en í febrúar var hann lang yngstur til þess að taka þátt í leik í efstu deild.
Ragnar átti metið
Ragnar Jóhannsson, var fyrir gærkvöldið, sá yngsti sem skorað hefur í efstu deild karla hér á landi. Ragnar var 15 ára og 138 daga gamall er hann skoraði fyrir Selfoss í leik við Hauka á Ásvöllum 12. mars 2006. Ragnar skoraði annað mark 12 dögum síðar.
Þriðji er Aron Pálmarsson, FH, 15 ára og 223 daga gamall er hann skoraði í leik FH og ÍBV 1. mars 2006.
Brynjar Narfi skoraði eitt mark gegn ÍBV í 36:30 sigri FH-inga. Markið skoraði Brynjar Narfi þegar tvær mínútur voru til leiksloka, 36:28.
Hinn 14. febrúar á þessu ári varð Brynjar Narfi yngstur til þess að koma við sögu í leik í efstu deild hér á landi, 14 ára og 229 daga gamall í viðureign FH og Fjölnis í Fjölnishöllinni. Í þeim leik átti Brynjar Narfi eitt markskot sem geigaði.