- Auglýsing -
- Auglýsing -

Bundu enda á taphrinu fyrir framan stuðningsmenn

Hergeir Grímsson skorar gegn Gróttu á mánudaginn. Hann lék afar vel í sigurleik á ÍBV í Hleðsluhöllinni í kvöld. Mynd/Selfoss/SÁ
- Auglýsing -

Eftir þrjá tapleiki í röð tókst liði Selfoss loks að snúa þróuninni við og vinna í kvöld á heimavelli þegar ÍBV kom í heimsókn í Suðurlandsslag, 27:25. Eftir spennandi leik með kærkominni stemningu frá nokkrum hópi áhorfenda þá voru leikmenn Selfoss einbeittari á lokakaflanum og tryggðu sér kærkominn sigur. Staðan var jöfn að loknum fyrri hálfleik, 13:13.


Í jöfnum og spennandi leik kom Ragnar Jóhannsson Selfossi yfir, 24:22, þegar hálf sjöunda mínúta var eftir. Leikmenn ÍBV jöfnuðu metin með tveimur mörkum úr vítaköstum frá Hákoni Daða Styrmissyni. Guðmundur Hólmar Helgason kom Selfossi yfir á ný þegar þrjár mínútur voru eftir og á ný jafnaði Hákoni Daði metin úr úr vítakasti. Selfyssingar voru manni færri til leiksloka en létu það ekki á sig fá.


Í jafnri stöðu var það uppaldi Eyjamaðurinn Nökkvi Dan Elliðason sem skoraði 26. mark Selfoss þegar 46 sekúndur voru til leiksloka. Upp úr því misstu leikmenn ÍBV boltann frá sér á klaufalegan hátt. Leikmenn Selfoss gátu þar með spilað leikinn út áður en Hannes Höskuldsson innsiglaði sigurinn tíu sekúndum fyrir leikslok með marki af línunni eftir stoðsendingu frá línumanninum Atla Ævari Ingólfssyni sem er vanari að þiggja sendingarnar en að veita þær.


Atli Ævar Ingólfsson lék afar vel fyrir Selfoss eins og oft áður. Hann greip allar sendingar sem honum bárust og skoraði nær án undantekninga. Hergeir Grímsson var allt í öllu í sóknarleiknum. Flestir aðrir eiga nokkuð inni, alltént í sókninni. Vilius Rasimus, markvörður, var traustur að vanda.
Ungt lið ÍBV getur ekki annað en vakið aðdáun. Tapið breytir engu þar um. Á köflum í fyrri hálfleik var Hákon Daði Styrmisson elsti leikmaðurinn í sókninni, 23 ára gamall. Þessi strákar geta bara orðið betri. Vissulega heftir það leik liðsins nokkuð að hafa ekki örvhenta skyttu.

Sigtryggur Daði Rúnarsson kom aðeins við sögu í sókninni í síðari hálfleik Hann virtist ryðgaður enda ekki tekið þátt í handboltaleik síðan í október.
Leikurinn á Selfossi var ekki vel leikinn en hann var að mörgu leyti skemmtilegur, jafn og spennandi. Til viðbótar var þetta fyrsti leikurinn svo mánuðum skiptir sem áhorfendur mega mæta í Hleðsluhöllina. Meðal þeirra sem lagði leið sína á Selfoss af þessu tilefni var Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ásamt tveimur sonum sínum.


Áhorfendur, að Guðna undanskildum, nýttu sér vel nýfengið frelsi. Greinilegt var að mikil og uppsöfnuð þörf var á meðal þeirra sem mættu að láta til sín taka. Það setti ekkert nema skemmtilegan svip á leikinn enda hugsuðu flestir eftir að flautað var af það sama. Mikið óskaplega var gaman að heyra í áhorfendum.


Mörk Selfoss: Atli Ævar Ingólfssson 8, Hergeir Grímsson 7, Hannes Höskuldsson 4, Alexander Már Egan 3, Guðmundur Hólmar Helgason 1, Einar Sverrisson 1, Ragnar Jóhannsson 1, Ísak Gústafsson 1, Nökkvi Dan Elliðason 1.
Varin skot: Vilius Rasimus 11, 33,3%.
Mörk ÍBV: Hákon Daði Styrmisson 10/7, Dagur Arnarsson 4, Theodór Sigurbjörnsson 3, Arnór Viðarsson 2, Kári Kristján Kristjánsson 2, Sigtryggur Daði Rúnarsson 1, Sveinn Jose Rivera 1, Róbert Sigurðarson 1, Ívar Logi Styrmisson 1.
Varin skot: Björn Viðar Björnsson 4, 20% – Petar Jokanovic 1, 8,3%.

Öll tölfræði leiksins á HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -