Aðal burðarás handknattleiksliðs Kríu, nýliða Olísdeildar karla, Daði Laxdal Gautason, hefur óvænt lýst því yfir að hann hafi lagt handknattleiksskóna á hilluna nú þegar. Daði greinir frá ákvörðun sinni í færslu á Facebook skömmu fyrir hádegið.
„Ferillinn endaði alveg eins og hann byrjaði, með því að ná árangri með bestu vinum mínum,“ segir Daði m.a. í færslu sinni.
Kría vann sér í vor keppnisrétt í Olísdeild karla með því að leggja Víkinga í einvígi um keppnisréttinn.
Eftir það hefur gengið á ýmsu hjá félaginu. Lárus Gunnarsson þjálfari var ráðinn þjálfari í Noregi í kjölfarið og forráðamönnum Kríu var tilkynnt að ekki væri rúm fyrir þá í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi hvar liðið hefur haft bækistöðvar til æfinga og keppni. Framhaldið er á huldu en síðast þegar handbolti.is vissi var liðið ennþá skráð til leiks í Olísdeildinni sem hefst upp úr miðjum september. Óvissa vex fremur en hitt með tilkynningu Daða sem lék um árabil með Gróttu og var einn reyndasti og fremsti leikmaður Kríu.