Króatíska landsliðið í handknatteik karla varð fyrir miklu áfalli í dag í undirbúningi sínum fyrir Evrópumeistaramótið sem hefst eftir níu daga. Tveir af helstu kempum liðsins, Domagoj Duvnjak og Luka Cindric hafa greinst með covid19.
Ljóst er að fjarvera þeirra mun setja talsvert strik í reikninginn í undirbúningi Króata fyrir EM enda eru vart mikilvægari menn í hinu gríðar sterka liði Króata en Duvnjak og Cindric. Til viðbótar er Luka Sebetic úr leik vegna handarbrots.
Óvíst er með öllu hvort Duvnjak og Cindric geti verið með króatíska landsliðinu á EM. Alltént virðist ljóst að þeir verða vart með í fyrsta leik liðsins verði farið eftir 10 daga einangrunarreglum sem eru í gildi í Króatíu eins og mörgum öðrum ríkjum Evrópusambandsins.
Krótar verða í riðli með Frökkum, Serbum og Úkraínumönnum í riðli á EM. Þeir mæta Frökkum í fyrsta leik fimmtudaginn 13. janúar í Szeged í Ungverjalandi.
Fleiri eru grátt leiknir af covid
Kórónuveira leikur ekki aðeins Króata grátt þessa dagana. Henni hefur skotið upp kollinum í landslið Tékka þar sem tveir hafa greinst með covid. Veiran lék Tékka grátt í aðdraganda HM fyrir ári sem varð til þess að þeir urðu að draga sig úr keppni á mótinu á elleftu stundu.
Þrír úr hóp leikmannahópi Svartfellinga auk starfsmanns sitja í covid súpunni um þessar mundir. Fyrir vikið hafa Svartfellingar hætt við þátttöku á alþjóðlegu móti í Sviss.
Vladimir Cupara, markvörður, og Bogdan Radivojevic, landsliðsmenn Serbíu eru í einagrun um þessar mundir eftir að hafa greinst með covid. Til að bæta gráu ofan á svart hjá Serbum þá er landsliðsþjálfarinn Toni Gerona og markvarðþjálfarinn Dimitrija Pejanovic einnig með veiruna auk sjúkraþjálfara og væntanlegs aðal farastjóra serbneska landsliðsins.