„Ég á vona hörkuleik. Grikkir eru með agressívt lið man ég frá því að við lékum við þá í fyrra,“ segir Sigvaldi Björn Guðjónsson landsliðsmaður í handknattleik í samtali við við handbolta.is í Chalkida í dag um leikinn við Grikki á morgun í undankeppni Evrópumótsins í handknattleik.
„Við búumst við fullri höll og góðri stemningu,“ segir Sigvaldi en litlar upplýsingar hafa fengist um hvernig Grikkjum hefur gengið að selja í þau nærri 2.000 sæti sem eru í hinni gömlu keppnishöll sem kennd er við Tasos Kampouris.
„Leikmenn gríska liðsins hafa verið lengi saman með nokkrum ungum leikmönnum sem bætast við núna. Þótt þetta séu ekki þekktir handknattleiksmenn þá eru þeir góðir.”
Spurningin er frekar hvernig íslenska landsliðið bregst við vegna margra breytinga sem orðið hafa á leikmannahópnum frá HM í janúar. Sigvaldi segir tvær góðar æfingar hafi reynst mikilvægar og góðar þótt aðeins hafi vantað upp á að fullmannað væri á fyrri æfinguna, m.a. varð Óskar Bjarni Óskarsson aðstoðarþjálfari að rifja upp gamla varnartaka til að fylla upp í tvö lið á æfingunni í gær.
„Kerfið okkar er nokkuð einfalt sem auðveldar mönnum að komast inn í hlutina,“ segir Sigvaldi Björn Guðjónsson léttur í bragði í samtali við handbolta.is.
Lengra viðtal við Sigvalda Björn er í myndskeiði hér fyrir ofan.
Leikur Grikklands og Íslands hefst klukkan 17 að íslenskum tíma á morgun, miðvikudag. Síðari viðureignin fer fram á laugardaginn í Laugardalshöll. Miðasala er midix.is.
Íslenska landsliðið í Chalkida:
Markverðir:
Björgvin Páll Gústavsson, Valur, (281/25).
Ísak Steinsson, Drammen HK (0/0).
Aðrir leikmenn:
Andri Már Rúnarsson, SC DHfK Leipzig (2/0).
Arnór Snær Óskarsson, Kolstad (2/0).
Aron Pálmarsson, Veszprém (182/694).
Benedikt Gunnar Óskarsson, Kolstad (3/1).
Einar Þorsteinn Ólafsson, Fredericia HK (19/6).
Elliði Snær Viðarsson, Vfl Gummersbach (58/124).
Haukur Þrastarson, Dinamo Búkarest (41/56).
Janus Daði Smárason, Pick Szeged (94/164).
Kristján Örn Kristjánsson, Donni, Skanderborg AGF (33/61).
Óðinn Þór Ríkharðsson, Kadetten Schaffhausen (50/147).
Orri Freyr Þorkelsson, Sporting Lissabon (24/74).
Sigvaldi Björn Guðjónsson, Kolstad (83/225).
Stiven Tobar Valencia, Benfica (18/18).
Þorsteinn Leó Gunnarsson, FC Porto (13/19).
Ýmir Örn Gíslason, Frisch Auf! Göppingen (100/44).