Handknattleiksmaðurinn Darri Aronsson er kominn til Parísar eftir að hafa verið á Íslandi í vor og í sumar og sinnt endurhæfingu undir stjórn Elísar Þórs Rafnssonar sjúkraþjálfara. Darri sleit hnéskeljarsin í lok febrúar og gekkst hann undir aðgerð í kjölfarið. Eftir aðgerðina tók við langt og strangt endurhæfingaferli sem standa mun fram yfir næstu áramót.
Allt á réttri leið
„Ég fór til Frakklands 15. ágúst og hef síðan verið í endurhæfingu á vegum félagsins,“ sagði Darri við handbolta.is. Darri er samningsbundinn franska efstu deildarliðinu US Ivry. Skrifaði undir þriggja ára samning við vorið 2022.
„Ég er á réttri leið. Ef allt fer samkvæmt áætlun þá byrja ég að hlaupa í október og æfa handbolta í desember. Vonandi næ ég þá byrja að spila með liðinu í febrúar eða í mars,“ sagði Darri ennfremur sem sér fram á árs bataferli eftir meiðslin sem skiljanlega reynir mjög á þolinmæðina.
Einstaklega óheppinn
Darri, sem lék með Haukum áður en hann samdi við US Ivry, hefur verið einstaklega óheppinn með meiðsli. Hann ristarbrotnaði sumarið 2022 og var rétt búinn að ná sér á skrið eftir brotið þegar hnéskeljarsinin slitnaði í lok febrúar.
Darri var einn þeirra sem kallaður var inn í landsliðið þegar covid-faraldurinn fór sem eldur í sinu um landsliðið á Evrópumótinu í Ungverjalandi og Slóvakíu í upphafi árs 2022.