Handknattleiksmaðurinn Felix Már Kjartansson er byrjaður að pakka niður föggum sínum í Þórshöfn. Hann hyggur á heimferð eftir að hafa lokið keppnistímabilinu með færeyska úrvalsdeildarliðinu Neistanum. Felix Már sagði í skilaboðum til handbolta.is að stefnan hafi verið sett á að koma heim til Íslands eftir mánaðarmótin að loknu lærdómsríku tímabili í Færeyjum. Ekki væri þó enn víst með hvaða liði hann leikur á næsta tímabili.
Heilt ár án skakkafalla
„Eftir gott ár og mikla lífsreynslu hérna í Færeyjum er nú loksins hægt að byggja á því eftir gríðarlega mikil meiðsli síðustu ár hjá mér. Það að hafa klárað heilt tímabil án nokkurra skakkafalla var það mikilvægasta fyrir mig persónulega og að þar af leiðandi er hægt að taka næstu skref í framhaldinu,“ sagði Felix við handbolta.is.
Þarf að heyra hljóðið í fólki
Spurður hvort hann stefndi á að endurnýja kynnin við HK sagðist Felix Már ekki útiloka neitt. „Auðvitað yrði það þægilegt og heillandi að fara heim í Kórinn. Á næstunni þarf maður að heyra hljóðið í fólki á þeim bænum og vita hvernig staðan blasir við þeim varðandi mig,“ sagði Felix Már Kjartansson sem leikið hefur með Neistanum í færeysku úrvalsdeildinni á undanförnum mánuðum.
Neistanum gekk ekki sem skildi í úrvalsdeildinni og hafnaði í næst neðsta sæti en komst hinsvegar í úrslitaleik bikarkeppninnar í febrúar hvar liðið beið lægri hlut fyrir H71.