Króatíski landsliðamaðurinn Luka Cindric eltir þjálfarann Xavi Pascual frá Dinamo Búkarest til ungverska meistaraliðsins Veszprém og verður m.a. samherji Bjarka Más Elíssonar. Veszprém staðfesti komu hins þrítuga Cindric til félagsins í dag. Orðrómur kveiknaði strax við brottför Pascual frá Rúmeníu til Ungverjalands í byrjun síðasta mánðar að Cindric kæmi í kjölfarið.
Cindric var víst með ákvæði í samningi sínum við Dinamo Búkarest um að hann gæti farið sína leið ef spænski þjálfarinn hætti hjá félaginu. Cindric var leikmaður Barcelona meðan Pascual þjálfaði Katalóníuliðið og hvarf fljótlega á braut eftir að Spánverjinn tók hatt sinn og staf burt frá herbúðum Barcelona sumarið 2021.
Samningur Veszprém við Cindric er til tveggja ára með möguleika á tveggja á framhaldi ef áhugi verður fyrir. Cindric hefur um árabil verið einn allra besti handknattleiksmaður heims.
Forráðamenn Veszprém hafa ekki farið dult með þá ætlan sína að undir stjórn Pascual sé það æðsta ósk þeirra að lið félagsins vinni loksins Meistaradeild Evrópu eftir nokkrar árangurslausar tilraunir í gegnum tíðina. Í tilkynningu Veszprém segir að leikmannahópur félagsins fyrir næstu leiktíð liggi nú fyrir með komu Cindric.