Átta liða úrslitum Olísdeildar karla í handknattleik lýkur í kvöld með tveimur hörkuleikjum, annarsvegar í Hleðsluhöllinni á Selfossi klukkan 18, Selfoss – Stjarnan, og hinsvegar í Origohöllinni á Hlíðarenda klukkan 20 þegar Valur og KA eigast við.
Selfoss vann fyrri viðureignina við Stjörnuna með tveggja marka mun á þriðjudagskvöld, 26:24 í skemmtilegum og spennandi leik í TM-höllinni. Valsmenn voru sannfærandi í viðureign sinn við KA í KA-heimilinu sama kvöld þótt munurinn hafi verið fjögur mörk þegar upp var staðið, 30:26, Val í vil.
Mestur varð munurinn tíu mörk áður en Valsmenn slökuðu á klónni.
Í gær komust deildarmeistarar Hauka og ÍBV í undanúrslit. Haukar fóru þægilega í gegnum leiki sína við laskað lið Aftureldingar. Sigtryggur Daði Rúnarsson skaut ÍBV áfram þegar hann jafnaði metin, 33:33, á síðustu sekúndu gegn FH í Kaplakrika. ÍBV komst áfram á fleiri mörkum skoruðum um á útivelli en þeir skoruðu þrjú síðustu mörk leiksins í Kaplakrika.
Eftir leiki gærkvöldsins í átta liða úrslitum er staðan þessi þegar horft er til undanúrslita:
Haukar gegn Selfoss/Stjarnan.
ÍBV gegn Valur/KA.
Þriðjudaginn 8. júní hefjast undanúrslit með leik í Vestmannaeyjum og annað hvort á Selfossi eða í Garðabæ. Síðari undanúrslitaleikirnir eru ráðgerðir föstudaginn 11. júní.
Leikir kvöldsins, 8-liða úrslit Olísdeildar karla, síðari viðureignir:
Hleðsluhöllin: Selfoss – Stjarnan (26:24), kl. 18 – sýndur á Stöð 2 Sport.
Origohöllin: Valur – KA (30:26), kl. 20 – sýndur á Stöð 2 Sport.