Níunda umferð Olísdeildar kvenna hefst í kvöld með viðureign á Ásvöllum. ÍBV sækir Hauka heim og stendur til að flauta til leiks klukkan 19.30. Til stóð að leikurinn færi fram á laugardaginn en honum var flýtt vegna þátttöku ÍBV í 3. umferð Evrópubikarkeppninnar um helgina. ÍBV heldur af stað til Madeira á morgun til tveggja leikja við samnefnt lið á laugardag og sunnudag.
Eins og kom fram á laugardaginn þá óskaði ÍBV eftir að leiknum yrði frestað vegna þátttöku í Evrópukeppninni. Ekki hefur orðið við þeim óskum og því verður slagur látinn standa á Ásvöllum í kvöld.
Níunda umferðin er sú næst síðasta sem fram fer í Olísdeild kvenna áður en hlé verður gert á keppni vegna þátttöku íslenska landsliðsins á heimsmeistaramótinu sem hefst undir mánaðamót.
Leikur kvöldsins
Olísdeild kvenna:
Ásvellir: Haukar – ÍBV, kl. 19.30.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Hægt verður að fylgjast með útsendingu frá leiknum á handboltapassa HSÍ í Sjónvarpi Símans.