Mikið stendur til í Sethöllinni á Selfoss í kvöld þegar kvennalið Selfoss mætir FH í Grill 66-deild kvenna. Hvernig sem leikurinn fer þá taka leikmenn Selfoss við sigurlaunum sínum fyrir sigur í deildinni.
Lið Selfoss hefur haft mikla yfirburði í deildinni í vetur og unnið hverja einustu viðureign sína á sannfærandi hátt. Þannig var málum háttað eftir sigur á ungmennaliði Vals á síðasta sunnudag og að ekkert liðanna í deildinni gat lengur lagt stein í götu Selfyssinga á leið þeirra upp í Olísdeildina á ný. Selfoss féll úr Olísdeildinni á síðasta vori. Í stað þess að leggja árar í bát þá hertu leikmenn og þjálfarar Selfossliðisins róðurinn þannig að nú er svo komið að sæti í Olísdeild blasir við fyrir stafni.
Til viðbótar eigast Grótta og Víkingur við í Olísdeild karla, 17. umferð, í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi í kvöld. Víkingar eru vígahug eftir sigur á Selfossi á heimavelli á sunnudaginn og verða vafalaust skeinuhættir Gróttumönnum sem hafa átt misjöfnu gengi að fagna upp á síðkastið.
Leikir kvöldsins
Olísdeild karla, 17. umferð:
Hertzhöllin: Grótta – Víkingur, kl. 19.30 – handboltapassinn.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Grill 66-deild kvenna:
Sethöllin: Selfoss – FH, kl. 19.30 – handboltapassinn.
Staðan og næstu leikir í Grill 66-deildum.