Úrslitakeppni Olísdeildar karla í handkattleik heldur áfram í kvöld þegar FH og ÍBV mætast í þriðja sinn í undanúrslitum. Að þessu sinni verður leikið í Kaplakrika í Hafnarfirði. Upphafsmerki verður gefið klukkan 18.30. FH-ingar hafa unnið tvo sannfærandi sigra á ÍBV, Íslandsmeisturum síðasta árs, fram til þessa, 36:31 á Ásvöllum fyrir viku og 36:28 í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum sumardaginn fyrsta.
Eyjamenn eru svo sannarlega komnir með bakið upp að veggnum í einvíginu. Tap í leiknum í kvöld verður til þess að ÍBV fellur úr leik. Sigri ÍBV kemur til fjórða leiks í Vestmannaeyjum á verkalýðsdaginn.
Búast má við fjölmenni á leikinn í Kaplakrika. FH-ingar munu storma á leikinn eins og þeir hafa svo oft gert. Væntanlega er heillaráð að mæta snemma í Kaplakrika.
ÍBV efnir til tveggja hópferða frá Eyjum auk þess sem Eyjamenn á höfuðborgarsvæðinu láta sig vafalaust ekki vanta.
Miðasala á leikinn á Stubb – smellið hér.
Hvort liðið tekur forystu?
Grótta vann Aftureldingu, 31:27, í annarri viðureign liðanna í umspili Olísdeildar kvenna í Hertzhöllinni á fimmtudaginn og jafnaði metin. Hvort lið hefur einn vinning en vinna þarf þrjá leiki til þess að tryggja sér sæti í Olísdeildinni á næstu leiktíð.
Í dag mætast Afturelding og Grótta í þriðja skiptið að Varmá klukkan 16.
Leikirnir verða sendir út á handboltapassanum.
Fer Valur í úrslit?
Ofan á annað þá leikur Valur í dag síðari undanúrslitaleikinn í Evrópubikarkeppninni í handknattleik karla við rúmenska liðið Minaur Baia Mare. Viðureignin fer fram í Rúmeníu og hefst klukkan 15 að íslenskum tíma. Valur hefur átta marka forskot eftir sigur á Hlíðarenda fyrir viku. Því miður verður leikurinn hvorki sendur út á Netinu né í sjónvarpi.
Leikir dagsins
Umspil Olísdeildar kvenna, úrslit, 3.leikur:
Varmá: Afturelding – Grótta (1:1), kl. 16.
Umspil Olís kvenna: leikjadagskrá og úrslit
Úrslitakeppni Olísdeildar karla, undanúrslit, 3.leikur:
Kaplakriki: FH – ÍBV (2:0), kl. 18.30.
Olís karla: Leikjadagskrá, úrslitakeppni
Evrópubikarkeppni karla, undanúrslit, síðari leikur:
Baia Mare: Minaur Baia Mare – Valur, kl. 15.
-Valur vann fyrri viðureignina, 36:28.
-Því miður verður leikurinn hvorki sendur á Netinu né í sjónvarpi.
-Samanlagður sigurvegari leikjanna tveggja mætir Olympiacos í úrslitaleikjum síðla í maí.