Áfram heldur spennan í úrslitakeppni Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld þegar FH og Selfoss mætast í oddaleik í Kaplakrika klukkan 19.30. Mikil spenna ríkti á Ásvöllum í gærkvöld þegar Haukar og KA mættust og fyrrnefnda liðið hafði betur með eins marks mun, 31:30. Reikna má að með að viðlíka spenna verði uppi í kvöld í Kaplakrika.
Selfoss vann fyrstu viðureignina í Kaplakrika með eins marks mun, 28:27. FH svaraði að bragði á síðasta mánudag og hafði talsverða yfirburði frá upphafi. Þegar upp var staðið var munurinn fimm mörk. Selfossliðið olli vonbrigðum á mánudaginn og víst er að leikmenn ætla að svara fyrir sig í kvöld.
Búist er við mjög mörgum áhorfendum á leikinn í Kaplakrika í kvöld, jafnt úr Hafnarfirði og frá Selfossi. Af því leiðir að rétt er að hvetja fólki til þess að mæta tímanlega.
Í kvöld hefst einnig úrslitakeppni Olísdeildar kvenna þegar liðin sem höfnuðu í þriðja til sjötta sæti mætast en liðin sem hrepptu tvö efstu sætin, Fram og Valur, sitja yfir.
Í Vestmannaeyjum mætast ÍBV og Stjarnan og í KA-heimilinu Íslandsmeistarar KA/Þórs og Haukar. Fyrri viðureignin hefst klukkan 18 og sú síðari kl. 19.40.
Liðin mætast öðru sinni um helgina, í TM-höllinni í Garðabæ á laugardaginn þegar ÍBV sækir Stjörnuna heim og á sunnudaginn þegar KA/Þór mætir á Ásvelli til leiks við Hauka.
Í fyrstu umferð úrslitakeppni Olísdeildar kvenna þarf að vinna tvo leiki til að öðlast sæti í undanúrslitum þegar Fram og Valur mæta til leiks.
Leikir kvöldsins
Olísdeild karla, átta liða úrslit, oddaleikur:
Kaplakriki: FH – Selfoss, kl. 19.30 (1:1) – sýndur á Stöð2Vísir í opinni dagskrá.
Leikjadagskrá úrslitakeppni Olísdeildar karla er að finna hér.
Olísdeild kvenna, 1. umferð, fyrstu leikir:
KA-heimilið: KA/Þór – Haukar, kl. 18 – sýndur á Stöð2Sport.
Vestmannaeyjar: ÍBV – Stjarnan, kl. 19.40 – sýndur á Stöð2Sport.
Leikjadagskrá úrslitakeppni Olísdeildar kvenna er að finna hér.