Í mörg horn verður að líta fyrir handknattleiksáhugafólk í kvöld. Sex leikir fara fram í þremur deildum auk þess sem Evrópuleikur fer fram í KA-heimilinu, sá fyrsti í hart nær tvo áratugi.
Fram og Valur mætast í Úlfarsárdal klukkan 19.30 í Olísdeild karla. Það verður önnur viðureign liðanna í vikunni en þau leiddu saman hesta sína í Origohöllinni á mánudagskvöldið. Valur vann með sjö marka mun, 34:27, og var um að ræða fyrsta tap Framara í deildinni á leiktíðinni. Einar Jónsson þjálfari Fram tekur út leikbann í kvöld.
Keppni hefst á nýjan leik í Grill66-deild kvenna í kvöld eftir hlé. Tveir leikir verða á dagskrá, þar á meðal fyrsta viðureign Aftureldingarliðsins en það sat yfir í fyrstu umferð.
Víkingur, Fjölnir og HK verða í eldlínunni í leikjum í Grill66-deildar karla en keppni í deildinni hefur farið fjörlega af stað.
Sögulegur leikur verður í KA-heimilinu í kvöld þegar KA/Þór tekur á móti HC Gjorche Petrov frá Norður-Makedóníu í fyrstu umferð Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik. Flautað verður til leiks klukkan 19.30.
Um er að ræða fyrsta leik KA/Þórs í Evrópukeppni á heimavelli en liðið lék fjóra fyrstu leiki sína á vettvangi Evrópu í Kósovó og á Spáni á síðasta tímabili.
Síðari viðureign KA/Þórs og HC Gjorche Petrov verður í KA-heimilinu annað kvöld. Samanlagður sigurvegari leikjanna tveggja tekur sæti í annarri umferð. Nánar verður fjallað um leikinn á handbolta.is síðar í dag.
Leikir kvöldsins
Olísdeild karla, 5. umferð:
Úlfarárdalur: Fram – Valur, kl. 19.30 – sýndur á Stöð2sport.
Staðan í Olísdeild karla og næstu leikir.
Grill66-deild kvenna. 2. umferð:
Fylkishöll: Fjölnir/Fylkir – Grótta, kl. 18.30.
Varmá: Afturelding – ÍR, kl. 19.30.
Staðan í Grill66-deild kvenna og næstu leikir.
Grill66-deild karla, 3. umferð:
Safamýri: Víkingur – Fjölnir, kl. 19.30.
Kórinn: HK – KA U, kl. 19.30.
Ásvellir: Haukar U – Kórdrengir, kl. 20.
Staðan í Grill66-deild karla og næstu leikir.
Evrópubikarkeppni kvenna, 1. umferð, fyrri leikur:
KA-heimilið: HC Gjorche Petrov – KA/Þór, kl. 19.30.
Leikurinn verður sendur út stóð sem er hér fyrir neðan. Þar verða allir leikir KA og KA/Þórs sendir út að undanskildum útsendingum rétthafa leikja Olísdeildanna. Gjald er tekið af þeim vilja horfa á:
https://www.livey.events/ka-tv
Handbolti.is mun fylgjast með leikjum kvöldsins eftir fremsta megni.