Eftir átta daga hlé verður keppni haldið áfram í dag í Olísdeild karla með þremur leikjum í sjöundu umferð. FH-ingar sækja leikmenn ÍBV heim. Viðureignir liðanna á síðustu árum hafa engan svikið enda verið jafnar og spennandi.
Hörður fær Aftureldingu í heimsókn. Handknattleikslið Aftureldingar lék síðast á Ísafirði 23. október 1994 gegn BÍ í 1. umferð bikarkeppninnar. Aftureldingarmenn unnu, 43:20, enda með afar sterkt lið á þeim tíma undir stjórn Guðmundar Þórðar Guðmundssonar. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Hinn glæsilegi togari, Guðbjörg ÍS, var á þessum tíma nýkominn til landsins. Fengu Mosfellingar, sem áhuga höfðu, skoðunarferð um skipið meðan þeir dvöldu á Ísafirði vegna leiksins.
Þriðja leikur sjöundu umferðar fer fram í nýju og glæsilegu íþróttahúsi ÍR-inga í Skógarseli. Leikmenn Selfoss koma í heimsókn og mæta nýliðunum.
Olís deild karla, 7. umferð:
Vestmannaeyjar: ÍBV – FH, kl. 13.30 – sýndur á Stöð2sport.
Torfnes: Hörður – Afturelding, kl. 16 – sýndur á youtube-síðu Knattspyrnufélagsins Harðar.
Skógarsel: ÍR – Selfoss, kl. 19.30 – sýndur á ÍRtv.
Staðan:
Valur | 7 | 6 | 0 | 1 | 225 – 187 | 12 |
Fram | 7 | 3 | 3 | 1 | 203 – 198 | 9 |
ÍBV | 6 | 3 | 2 | 1 | 214 – 177 | 8 |
Afturelding | 6 | 3 | 1 | 2 | 162 – 155 | 7 |
Selfoss | 6 | 3 | 1 | 2 | 180 – 174 | 7 |
Stjarnan | 6 | 2 | 2 | 2 | 169 – 171 | 6 |
FH | 6 | 2 | 2 | 2 | 163 – 169 | 6 |
Haukar | 6 | 2 | 1 | 3 | 164 – 163 | 5 |
Grótta | 6 | 2 | 1 | 3 | 168 – 164 | 5 |
KA | 6 | 2 | 1 | 3 | 167 – 174 | 5 |
ÍR | 6 | 2 | 0 | 4 | 166 – 210 | 4 |
Hörður | 6 | 0 | 0 | 6 | 171 – 210 | 0 |
Landsleikur í Klaksvík
Til viðbótar er rétt að geta þess að íslenska landsliðið í handknattleik kvenna mætir færeyska landsliðinu öðru sinni í dag í Klaksvík. Viðureignin hefst klukkan 16.
Handbolti.is gefur öllum leikjum dagsins gætur.