Önnur umferð fyrsta hluta úrslitakeppni Olísdeildar kvenna í handknattleik fer fram í dag með tveimur leikjum.
Íslandsmeistarar síðasta árs, Fram, standa höllum fæti gegn Haukum eftir sex marka tap, 26:20, í Úlfarsárdal á mánudagskvöld. Fram verður að vinna í dag til þess að ná í oddaleik á heimavelli. Vinni Haukar þá fer liðið áfram og mætir ÍBV í undanúrslitum.
Viðureign Hauka og Fram hefst klukkan 15 á Ásvöllum.
Með einn sigur í pokahorninu sækir Stjarnan lið KA/Þórs heim í KA-heimilið klukkan 17. Garðbæingar unnu í TM-höllinni á mánudaginn, 24:19. KA/Þórsliðið hefur örugglega ekki sagt sitt síðasta. Sigurliðið í þessari rimmu, hvort sem henni lýkur í dag eða ekki, glímir við Val í undanúrslitum úrslitakeppninnar.
Komi til oddaleikja fara þeir fram á sunnudaginn.
Úrslitakeppni Olísdeildar kvenna, 1. hluti, 2. umferð:
Ásvellir: Haukar – Fram, kl. 15 (1:0) – sýndur á Stöð2sport.
KA-heimilið: KA/Þór – Stjarnan kl. 17 (0:1) – sýndur á Stöð2sport.
Handbolti.is fylgist með leikjum dagsins.