Tólfta umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik hefst í kvöld og það með stórleik Evrópuliðanna Hauka og Vals á Ásvöllum. Bæði lið standa í ströngu í Evrópubikarkeppninni um þessar mundir. Haukar komust í átta liða úrslit um síðustu helgi eftir tvo sigra á HC Galychanka Lviv frá Úkraínu. Valur fór til Spánar og gerði jafntefli við Málaga Costa del Sol án þess að vera með fullskipað lið vegna meiðsla og náms.
Valur er efstur í Olísdeildinni með 22 stig eftir 11 leiki. Haukar eru sex stigum á eftir í þriðja sæti. Valur hefur ekki tapað leik í deildinni síðan 21. október 2023 og þá einmitt gegn Haukum á Ásvöllum, 26:25.
Viðureign Hauka og Vals hefst klukkan 19.30 á Ásvöllum. Bein útsending verður í opinni dagskrá í sjónvarpi Símans og í Handboltapassanum fyrir þá sem það kjósa.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.