Tólftu umferð Olísdeildar kvenna sem hófst í gærkvöldi átti að ljúka með þremur leikjum í kvöld. Einum leik varð að slá á frest um hádegið þar sem lið KA/Þórs kemst ekki í bæinn vegna illviðris og ófærðar. Holtavörðuheiði er m.a. lokuð.
Tveir leikir verða háðir. Fram, sem situr í öðru sæti, fær Stjörnuna í heimsókn. Stjarnan hefur tapað þremur leikjum í röð. Spurningin er sú hvort leikmönnum liðsins takist að hrista af sér slenið.
Hinn leikur verður á milli Hauka og ÍBV í Schenkerhöllinni. ÍBV á harma að hefna eftir tap fyrir Haukum í fyrri viðureign liðanna sem fram fór í Vestmannaeyjum fyrir rúmum mánuði.
Eftir leiki kvöldsins tekur við 20 daga frí frá leikjum hjá liðum Olísdeildar kvenna vegna þátttöku landsliðsins í forkeppni heimsmeistaramótsins um aðra helgi. Landsliðið hefur æfingar á morgun fyrir keppnina sem fram fer í Norður-Makedóníu.
Tveir leikir fara fram í Grill 66-deildinni. Þar ber hæst viðureign Aftureldingar og ÍR að Varmá en liðin standa um þessar mundir best að vígi af þeim liðum deildarinnar sem eiga möguleika á að fara beint upp í Olísdeildina í vor.
Olísdeild kvenna:
Schenkerhöllin: Haukar – ÍBV, kl. 18 – sýndur á Stöð2Sport.
Framhús: Fram – Stjarnan, kl. 19.30 – sýndur á Framlive.
Kórinn: HK – KA/Þór, festað.
Staðan í Olísdeild kvenna.
Grill 66-deild kvenna:
Víkin: Víkingur – Fjölnir-Fylkir, kl. 19.30 – sýndur á Víkingurtv.
Varmá: Afturelding – ÍR, kl. 19.30 – sýndur á Aftureldingtv.
Staðan í Grill 66-deild kvenna.
Þessi grein var uppfærð klukkan 15.00.