Sjöundu umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik og níundu umferð Olísdeildar karla lýkur í dag með hörkuleikjum.
Haukar sækja leikmenn ÍBV heim í íþróttamiðstöðina í Vestmannaeyjum klukkan 14 í Olísdeild kvenna. Haukar hafa átta stig eftir sex viðureignir og mun jafna Fram að stigum takist liðinu að hreppa sigur í Eyjum. Falli sigurinn ÍBV í skaut hefur liðið sætaskipti við Selfoss og fer upp í fjórða sæti. Jafntefli mun einnig færa ÍBV upp fyrir Selfossliðið sem gerði jafntefli við Fram í Sethöllinni í gærkvöld.
Að Varmá mætast Afturelding og FH, liðin sem mættust í úrslitum Íslandsmóts karla í vor. Flautað verður til leiks að Varmá klukkan 17.20 og verður viðureignin send út í opinni dagskrá Símans. Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson eiga að dæma leikinn.
Mikið undir í Mosó
Afturelding er efst í deildinni með 13 stig, er stigi á undan Val sem lagði Gróttu í æsispennandi viðureign í Hertzhöllinni í gærkvöld. Íslandsmeistarar FH eru í þriðja sæti Olísdeildar, tveimur stigum á eftir Aftureldingu og geta þar af leiðandi jafnað Mosfellinga að stigum á toppnum með sigri.
Einnig fara leikir fram í Grill 66-deildum kvenna og karla í dag eins og getið er um hér fyrir neðan.
Auk útsendingar Símans frá toppslagnum að Varmá verða allar viðureignir dagsins aðgengilegar á Handboltapassanum, þar á meðal viðureign Aftureldingar og FH.
Leikir dagsins
Olísdeild kvenna:
Vestmannaeyjar: ÍBV – Haukar, kl. 14.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Olísdeild karla:
Varmá: Afturelding – FH, kl. 17.20.
Grill 66-deild kvenna:
Kórinn: HK – Berserkir, kl. 14.30.
Grill 66-deild karla:
N1-höllin: Valur2 – Fram2, kl. 16.45.
Staðan og næstu leikir í Grill 66-deildum.